pólitík

Fyrirtæki, eigendur og sósíalistar

26. febrúar 2021

Reykjavík,
Útsýni af Úlfarsfelli

Sósíalistar (Sósíalistaflokkurinn) vilja ekki ríkisvæða atvinnulífið, segir GSE á sósíalistaspjallinu á Facebook; „Sósíalistar vilja lýðræðisvæða atvinnulífið með samvinnufyrirtækjum og öðrum rekstri í eigu launafólksins.“

Sem er fínt að mínu mati ef við erum að tala um stök fyrirtæki, jafnvel mörg fyrirtæki. Fyrirtæki í eigu launafólks (n.b. ekki í eigu lífeyrissjóða sem eru í eigu launafólks, GSE hatar þá) eru flott og samvinnufélög geta verið flott, þó Sambandið eigi sínar dökku hliðar. Ég vil meira af þessu!

En það er millileikurinn sem vantar inn í myndina. Þ.e.a.s þegar sósíalistaflokkurinn breytir reglunum og hirðir öll fyrirtækin af núverandi eigendum (n.b. flest fyrirtæki eru lítil) og afhendir starfsfólkinu. Hvað gerist þá? GSE talar um atvinnulífið, þ.e.a.s. öll fyrirtæki.

Er þá úti úr myndinni að einstaklingur stofni fyrirtæki, það gengur vel og hann ræður starfsfólk en það á þá fyrirtækið til jafns með honum? Hvað með skuldirnar ef einhverjar eru? Alla vinnuna sem er búið að leggja í fyrirtækið áður en það starfsfólk var ráðið, eigið fé sem hefur myndast? Hvað ef starfsfólkið er vonlaust? Hvað gerist ef fyrirtæki fer á hausinn? Hverjir skrifa undir ábyrgðir ef það þarf, hverjir taka yfir ábyrgðir stofnanda?

Á nýjasti starfsmaðurinn, í hlutastarfi, jafn mikið og sá sem lengstu hefur unnið? Á sá sem hefur unnið í 30 ár og byggt fyrirtæklið upp ekki neitt þegar hann hættir?

Eflaust eru Gunnar Smári og félagar með svör við þessu öllu, það er þannig vanalega og allir aðrir algjörir fávitar. Ég styð að sem flest fyrirtæki séu í eigu starfsfólk með e-um hætti, t.d. þannig að hluti af arðgreiðslum fari til starfsfólks og skiptist með sanngjörnum hætti milli þeirra. En mér finnst líka eðlilegt að til séu fyrirtæki í eigu annarra en starfsmanna, að samfélagið tryggi sanngjarnt umhverfi fyrir starfsfólks og að háar arðgreiðslur séu skattlagðar frekar en gert er í dag.

Þó stór fyrirtæki séu stundum af hinu slæma, þá er ansi margt sem gerist bara í risastórum fyrirtækjum. Alvöru samkeppniseftirlit þarf þó að vera til staðar til að koma í veg fyrir að stórfyrirtæki gleypi ekki allt. Þið vitið, umhverfi fyrir blandað hagkerfi lítilla og stórra fyrirtækja, sum í eigu hluthafa, önnur í eigu starfsfólks og jafnvel hins opinbera!

Mér þætti skemmtilegra að það væri ekki helsta markmið flestra tæknifyrirtækja að láta stærri fyrirtæki gleypa sig! Af hverju þykir það eitthvað óspennandi að reka fyrirtæki á Íslandi sem er með kannski 20-30% hagnað ár eftir ár?

Merkilegt að margir þeirra sem vilja lýðræðisleg fyrirtæki, sem er stjórnað af starfsfólki (sem þá fundar reglulega) eru sérfræðingar í því að trana sér fram og ná völdum í slíku umhverfi.

Hljóðskrá ekki tengd.